veitingar
Það eru til einfaldar leiðir og ódýrar leiðir en það fer kannski sjaldnast saman. Auðveldast er að panta pizzu en talsvert ódýrara að sjóða pylsur. Krökkunum er sama en annað töluvert meiri vinna en hitt. Veldu það sem hentar þér best.
Í afmælum er vinsælast að hafa pizzur eða pylsur. Ég man hreinlega ekki eftir öðrum mat í afmælum. Hvað sem þú ákveður að bjóða upp á er skynsamlegt að hafa það einfalt. Lágmarks fyrirhöfn og einfalt að ganga frá.
Pizza Einfaldast af öllu er að panta tilbúna pizzu. Hægt er að sækja pizzuna eða hún send heim á meðan á afmælinu stendur. Þetta er einfalt því þú þarft hvorki að elda og svo er nánast ekkert til að ganga frá. Flest börn velja pepperóní, skinku og ost á pizzuna sína. Alltaf eru einhverjir sem vilja pizzu með engu (margaríta). Fáðu upplýsingar um hvort einhver sé með matarofnæmi eða óþol. Gott er að áætla tvær til þrjár sneiðar fyrir hvert barn. Því eldri, því fleiri sneiðar.
Pylsur Pylsur eru líka vinsælar, mun ódýrari kostur en þó meiri fyrirhöfn. Flest börn borða eina pylsu en sum borða tvær, það fer auðvitað líka eftir aldri. Gott er að gera ráð fyrir 1,5 á mann við innkaup. Það er líka ráð að græja pylsuna og skera hana í þrennt og raða á bakka í anda veislubakkans á Subway.
Hér er innkaupalisti:
Pylsur Pylsubrauð Tómatsósa Remúlaði Sinnep Steiktur laukur Hrár laukur
Súrar gúrkur fyrir lengra komna
Samlokur Grillaðar eða ofnbakaðar samlokur er þægileg leið því það er hægt að undirbúa það fyrr um daginn, þá þarf bara að hita brauðið. Sleppið sósunni og látið duga að setja skinku og ost. Þá er hægt að hafa sósubar sem börnin velja úr og fá á disk sem þau dýfa brauðinu ofan í. Skerið samlokurnar í helminga eða fjórðunga.
Það er í góðu lagi ef maturinn klárast, það er leiðinlegt að eiga mikinn afgang sem svo skemmist. Látið börnin bara vita strax í upphafi, hvað sé í boði og haldið fast í það þangað til öll hafa fengið sitt. Tökum dæmi, þið segið að það séu tvær sneiðar á mann, einhver börn borða báðar sínar og önnur bara eina sneið. Þegar öll hafa fengið tækifæri til að fá seinni sneiðina en afþakkað, má bjóða þriðju sneiðina.
Í raun er ekki hægt að gera neitt vitlaust þegar þú ákveður að bjóða uppá súkkulaðiköku, tja, nema þú bakir vandræði. Í stað þess að baka köku gætir þú bakað möffins í staðinn. Hvert barn fær þá eitt möffins sem kemur í veg fyrir leiðindi ef einhver fer að rífast yfir því að Siggi hafi nú fengið meira nammi á súkkulaðikökunni sinni en maður sjálfur.
Betty vinkona okkar kemur vel til greina til að aðstoða, ekkert að því.
Krakkar elska gos en líklega viltu gefa þeim eitthvað hollara eins og hreinan ávaxtasafa. Reyndu að gera drykkinn spennandi með lituðum klökum. Það geturðu gert með því að setja matarlit í klakaboxið. Hjálpaðu börnunum að hella í glösin til þess að forðast sull.
Fernur
„Heyrðu… Ég missti glasið óvart á gólfið og djúsinn sullaðist út um allt.“ Snilldar ráð sem spornar gegn niðursulli er að nota djúsfernur sem börnin geta drukkið úr með röri. Gerið ráð fyrir einni eða tveimur fernum á barn og látið vita strax í upphafi hversu mikið er á mann svo þau þambi ekki. Ef þau eru þyrst er vatn ókeypis.
Boost
Að bjóða upp á boost er góð leið til að gefa börnunum holla og góða næringu og minnkar sykurátið í afmælinu á sama tíma. Boostið getur verið í glasi eða skál og getur verið forréttur, aðalréttur eða eftirréttur. Í slíkt er hægt að setja epli, appelsínur, banana, frosin ber, haframjöl o.s.fr. Þú getur leyft sköpunargleðinni að ráða för og prófað þig áfram. Mundu bara að athuga hvort einhver börnin í afmælisveislunni hafi ofnæmi fyrir innhaldsefnum bústsins áður en þú leggur það á boðstóla. Þú getur skreytt drykkinn með berjum, múslí og bönunum.
Krakkar elska snakk og nammi og þess vegna getur verið tilvalið að bjóða upp á slíkt í afmælinu. Kannski viltu bjóða uppá hollara nasl eins og ávexti og ídýfu. Að borða hollan mat getur verið gaman og skemmtileg tilbreyting.
Hægt er að rífa upp kassa af Sun Lolly klökum korteri fyrir slútt. Ég mæli með að þau borði þá sitjandi, annars er hætt við að þú sért að þrífa upp sykur-klístur fram að næsta afmæli.
Sumir bjóða upp á gift bag að amerískri hefð, þar er oftast nammi og stundum lítil leikföng. Fyrir þá sem nenna þessu og hafa tímann fyrir sér er þetta alveg gaman, barnið þitt aðstoðar þig auðvitað við að setja í pokana áður en afmælið hefst. Samverustundir með börnunum skipta máli.