top of page

leikir

Leikir eru nauðsynlegir í barnaafmælum. Veldu nokkra leiki hér að neðan. Ekki er nauðsynlegt að hafa verðlaun fyrir sigurvegarann en veljir þú það að hafa verðlaun er um að gera að hafa þau lítil og ódýr t.d. sleikipinna, blöðru eða aðra smáhluti. Gott er að gefa öllum verðlaun þegar leikjum lýkur.

  • Afþreying við upphaf afmælisins
    Börn mæta alltaf hress og full eftirvæntingar í afmæli vina sinna. Á meðan allir týnast inn sem getur tekur allt upp í 20 mínútur getur verið gott að hafa eitthvað í boði fyrir þau. Leikstöðvar er einföld leið þar sem ýmislegt er í boði fyrir gestina. Einnig er hægt að spila tónlist og hafa helling af blöðrum sem hægt er að halda á lofti, sparka/slá á milli en einnig er hægt að strengja band þvert yfir stofuna og svo hægt sé að blaka þeim yfir.
  • Stöðvar
    Þú getur útbúið nokkrar stöðvar víðs vegar um heimilið og nýtt það sem þú átt til. Snákaspilið getur verið ein stöð, hægt er að lita myndir og svo geturðu nýtt þér marga þá leiki sem listaðir eru hér á síðunni. Hægt er að hafa bílastöð, leir, perlur, púsl, legó, dúkkur og bangsa eða hvað annað sem er viðeigandi fyrir aldur barnsins þíns. Betra er að hafa færri stöðvar en fleiri, þrjár til fjórar er tilvalið.
  • Blöðru-fjársjóðsleit
    Krakkar elska bæði ratleiki og fjársjóðsleitir enda nánast sami hluturinn. Áður en þú blæst blöðrurnar upp treðurðu litlum leikföngum eða nammi inn í blöðruna. Þú blæst þær svo upp og felur þær víðs vegar um húsið. Þegar leikurinn hefst fara allir af stað og leita að blöðru. Gangtu úr skugga um að krakkarnir viti hve margar blöðrur séu í boði á mann (ég mæli með einni til tveimur). Krakkarnir koma með blöðrurnar í miðrýmið, sprengja þær saman og vinna öll verðlaun. Þú þarft: Blöðrur ​Lítið dót eða nammi
  • Veiðiferðin
    Strengdu teppi yfir hálfan hurðakarm eða festu við stóla sem standa fyrir framan. Festu einnig þvottaklemmu á band og bandið á prik. Það er veiðistöngin. Einhver fullorðinn felur sig bakvið með fullt af góðgæti og verðlaunum hjá sér. Krakkarnir fara í röð og kasta „önglinum“ yfir teppið og reyna að veiða. Sá sem á bakvið er getur leikið við krakkana, togað í bandið eins og fiskur hafi bitið á, festir smá verðlaun á þvottaklemmuna og barnið verður hæst ánægt. Þú þarft: Teppi Prik Bandspotta Þvottaklemmu ​Lítil verðlaun
  • Stoppdans
    Allir dansa við tónlist en þegar tónlistin stoppar verða allir að frjósa. Ef einhver hreyfir sig dettur sá hinn sami úr leik. Leikurinn endar þegar einungis einn er eftir. Til eru fleiri útfærslur af þessum leik, t.d. væri hægt að setjast á gólfið þegar tónlistin stoppar. Sá síðasti að setjast dettur út og svo koll af kolli.
  • Sprengja
    Skemmtilegur leikur sem gengur út á svipað og pakkaleikurinn. Einnig er sniðugt að fara í sprengju áður en farið er í pakkaleikinn, þá er hægt að nota pakkann sem sprengju. Allir sitja í hring og ólíkt pakkaleiknum þá vill maður ekki hafa pakkann í höndunum. Þegar tónlistin er í gangi keppast krakkarnir um að koma pakkanum eins fljótt frá sér og mögulegt er. Þegar tónlistin stoppar „springur” sprengjan og það barn er úr leik. Sá vinnur sem lifði af.
  • Pakkaleikur
    Örlítinn undirbúning þarf í þennan leik. Þú finnur lítil verðlaun og pakkar þeim inní pappír (dagblöð eru mjög þægileg). Notaðu mikið límband (gott að nota kassalímband) svo erfiðara verði að opna pakkann. Þegar leikurinn hefst sitja allir saman í hring og eitt barn heldur á pakkanum. Þegar tónlistin fer í gang eiga krakkarnir að rétta pakkann sín á milli í hring og þegar tónlistin stoppar á það barn sem heldur á pakkanum að reyna að opna hann. Eftir stutta stund byrjar tónlistin aftur og pakkinn heldur áfram að ganga. Sá vinnur sem endar með verðlaunin í höndunum.
  • Blöðruröð
    Skiptu börnunum jafnt í tvö til þrjú lið. Þú lætur þau standa í beinni röð og lætur fremsta barnið fá eina blöðru. Ef börnin hafa aldur til getur leikurinn hafist á að þau blási blöðruna upp. Ef ekki þarf að vera búið að blása blöðrurnar upp. Leikurinn gengur svo út á að rétta blöðruna næsta manni fyrir aftan fyrir ofan haus. Þegar blaðran er kominn á aftasta mann á að koma henni fremst aftur með því að rétta hana í gegnum klofið. Það lið sem kemur blöðrunni fremst aftur vinnur. Hægt er að bæta ýmsu við leikinn, t.d. væri hægt að enda leikinn öðruvísi. Þegar blaðran er komin fremst þarf að sprengja hana. Liðið sem sprengir hana fyrst sigrar.
  • Tónlistar-húlla
    Kauptu húllahring fyrir hvert barn í afmælinu, einnig er hægt að vefja t.d. rafmagnsröri í hring og líma endann. Legðu hringina á gólfið og spilaðu skemmtilega tónlist á meðan krakkarnir dansa um sem eiga að stökkva inn í hring þegar tónlistin stoppar. Eftir hverja umferð fjarlægir þú einn hring en ekki barn. Í lokin reynir allur hópurinn að komast fyrir í einum hring með því að láta tá, fót eða jafnvel hönd snerta.
  • Bank bank
    Þessi er gamall en klassískur. Börnunum er skipt í tvö lið. Annar hópurinn fer inn í herbergi en hinn hópurinn bíður eftir inn í stofu. Eitt af öðru fara börnin inn í stofu að hurðinni, banka tvisvar, breyta röddinni sinni og svarar spurningum hinna. Þau sem eru fyrir innan giska á hver sé að banka.
  • Blöðruveiðar
    Útbúðu lágan vegg, t.d. með því að leggja stóla á hliðina. Það er einungis gert til að halda blöðrunum öllum á sama stað. Þar fyrir aftan eru blöðrur í alls kyns litum. Klipptu niður spjöld þar sem þú skrifar lit (eða litar litinn). Krakkarnir fara í röð og sá fremsti dregur spjald, fer bakvið vegginn og kemur til baka með eins margar blöðrur og það getur borið í þeim lit sem spjaldið gaf til kynna. Leikurinn klárast þegar allar blöðrurnar eru búnar. Enginn tapar, allir vinna. Getur ekki klikkað.
  • Bingó
    Hið hefðbundna bingó er kannski full flókið fyrir börn að spila án aðstoðar foreldra og er háð því að þú eigir búnaðinn. Þú getur þó búið leikinn til heima. Prentaðu út autt bingóspjald sem þú finnur með því að smella á hlekkinn hér að neðan og þú lætur svo börnin fylla inn tölurnar, t.d. hægt að velja tölur frá 1-20. Þú getur skrifað tölurnar á miða og sett í skál eða tússað tölurnar á borðtenniskúlur. Einnig er hægt að nota tölur frá einum og upp í tíu og þú dregur spil úr spilastokk (taktu bara mannspilin úr stokknum). ​ Smelltu HÉR fyrir bingóspjaldið!
  • Hve mikið?
    Fyrir jólin gera verslunarmiðstöðvar stundum jólatré úr gosi. Leikurinn snýst svo um að giska á hve margar flöskur séu í þessu risavaxna jólatré. Þú getur gert slíkt hið sama, fyllir stórt glært ílát af borðtenniskúlum, legóköllum, vínberjum eða öðru hentugu. Öll börnin skrifa á miða sitt allra besta gisk og skrifa nafnið sitt á sama miða. Þegar allir hafa skrifað á miða teljið þið innihaldið í sameiningu og getur oft myndast skemmtileg spenna í kringum það. Þú þarft: Miða Liti eða blýanta Krukku Eitthvað til að fylla krukkuna
  • Tískusýning
    Allir sitja í hring og í miðjunni er poki með alls kyns fötum. Fötin geta verið af foreldrum afmælisbarnins eða eldri systkinum en einnig er hægt að fara á flóamarkaði. Tónlist fer í gang og bolti gengur á milli (eða pakkinn fyrir pakkaleikinn). Þegar tónlistin stoppar dregur sá sem heldur á boltanum flík úr pokanum og klæðist. Boltinn gengur á milli þar til allir hafa a.m.k. eina flík en það getur orðið skrautlegt að láta leikinn halda dálítið áfram. Taktu mynd af hópnum í lokin. Passaðu þó að spila þetta eftir eyranu og stoppaðu áður en krökkunum fer að leiðast.
  • Hver er ég?
    Skrifaðu nöfn þekkta karaktera, geta bæði verið teiknimyndapersónur og lifandi fólk, á mánlingarlímband. Nöfnin eru límd aftan á bak barnanna sem spyrja hvort annað já eða nei spurninga og reyna að komast því hver þau séu.
  • Ávaxtakarfan
    Hver man ekki eftir ávaxtakörfunni úr sumarbúðum? Stólar eru í hring og allir velja sér einn ávöxt eða börnunum er raðað niður á ávexti. Best er að hafa þetta einfalt, t.d. epli, appelsína, banani og pera. Afmælisbarnið stendur í miðjunni og nefnir einn ávöxt. Allir þeir sem eru sá ávöxtur þurfa að standa upp og skipta um sæti. Afmælisbarnið reynir þá að setjast í auðan stól og einhver annar stjórnar næstu umferð. Ef leikstjórnandi segir „ávaxtakarfa“ eiga allir að skipta um sæti. Gott er að setja reglu að það sé einungis hægt í þriðja hvert skipti. Krakkarnir geta einnig setið á gólfinu.
  • Limbó
    Börnin raða sér í einfalda röð, afmælisbarnið fremst og fyrir fram röðina stendurðu með stöngina lárétta svo öll geti gengið undir án þess að beygja sig. Þegar röðin er aftur komin að afmælisbarninu lækkarðu stöngina svo þeir hæðstu þurfi að beygja sig. Hring eftir hring lækkar sláin. Eingöngu er leyfilegt að halla sér afturábak þegar þau gera tilraun til að komast undir. Ef barn dettur segirðu því að standa bara upp, fara aftast í röðina og reyna aftur. Ef sama barn dettur ítrekað hækkarðu bara stöngina svo það komist undir, þannig verður enginn úr.
  • Stólaleikur
    Raðaðu stólum í tvöfalda röð og að bökin snúi bak í bak. Stólarnir þurfa að vera jafn margir og krakkarnir. Tónlist fer af stað og allir ganga meðfram stólunum. Þú fjarlægir einn stól og stoppar síðan tónlistina. Allir reyna að setjast í stól en eitt barn verður úr. Þú biður það barn að fjarlægja næsta stól svo það finni sig ekki útundan. Þegar tónlistin stoppar verður annað barn úr leik. Þannig gengur það koll af kolli þar til tvö börn keppa um einn stól. Tónlistin stoppar, annað barnið nær að setjast í stólinn og þið krýnið sigurvegara.
  • Litabók
    Prentaðu út litabókina, settu ljúfa tóna á fóninn og leyfðu börnunum að lita. Einfaldara getur það ekki farið. ​ Til að sækja litabókina, smelltu HÉR.
  • Blása upp og sprengja blöðru keppni
    Einfaldur leikur sem er þægilegur í framkvæmd. Krakkarnir keppa sín á milli, hvert þeirra getur blásið upp blöðru, bundið hnút og sprengt fyrst. Ef þú ert með stóran hóp af börnum, láttu þau keppa þar til tvö eru eftir. Þau keppa til úrslita um hver sé fyrstu að blása blöðru þar til hún springur.
  • Brestur í blöðru
    Þessi leikur er frábær fyrir eldri börn. Bittu uppblásna blöðru við vinstri ökkla hvers barns. Kveiktu svo á tónlist sem allir geta dansað við. Um leið og tónlistin er stoppuð eiga börnin að reyna að sprengja blöðrur annnarra með því að stíga á hana með hægri fót. Á sama tíma þarf hver og einn að pasa upp á að enginn sprengi sína blöðru. Þegar blaðra springur dettur barnið úr leik. Sá síðasti sem hefur ósprungna blöðru við ökklann vinnur.
  • Málað á striga
    Þetta er ekki beint leikur en klárlega eitthvað sem krakkarnir munu muna. Leyfðu listrænu eðli barnanna að skína. Strengdu pappírsrúllu, t.d. ódýran gjafapappír, á grindverk. Þú getur verið með krítar, vatnsliti, vaxliti, trétliti eða málningu, fer eftir pappírnum og því sem þú átt eða getur útvegað. Mundu að þetta krefst eftirlits. Þú þarft: Pappírsrenning Málningu Liti Annað föndurdót
  • Vatnið gengur
    Ef viðrar vel er þessi skemmtilegur. Hvert barn þarf glas, gott getur verið að nota pappaglas. Öll börnin standa í röð og það fremsta fær glasið sitt fyllt af vatni. Það barn hellir vatninu úr glasinu sínu, yfir höfuðið og aftur fyrir bak. Barnið fyrir aftan gerir sitt besta til að grípa vatnið í glasið. Einnig er hægt að skipta í tvö lið og keppast um hver endar með meira vatn í aftasta glasi.
  • Lögg'og bói
    Einfaldur og þægilegur leikur sem er til í milljón útfærslun. Í stuttu máli einfaldur eltingaleikur. Hægt er að skipta öllum í tvo jafna hópa, löggur og bófa eða hafa nokkrar löggur og marga bófa. Þegar lögga nær bófa fer bófinn í fangelsi. Valkvætt hvort hægt sé að frelsa eða ekki. Leikurinn endar þegar allir bófarnir eru komnir í fangelsi. Þá er gott að skipta um hlutverk, bófar verða löggur og löggur bófar.
  • Málað á striga
    Þetta er ekki beint leikur en klárlega eitthvað sem krakkarnir munu muna. Leyfðu listrænu eðli barnanna að skína. Strengdu pappírsrúllu, t.d. ódýran gjafapappír, á grindverk. Þú getur verið með krítar, vatnsliti, vaxliti, trétliti eða málningu, fer eftir pappírnum og því sem þú átt eða getur útvegað. Mundu að þetta krefst eftirlits.
bottom of page